Þjónustuver: 08.00 til 17:00 - Sími: 455 7900

Fjölnet tengir hestamenn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík

Fjölnet verður opinber samstarfsaðili Landsmóts í netþjónustu.

Landsmót hestamanna fer fram í Reykjavík dagana 1.-8. júlí næstkomandi.  Þar verða á einum stað sýnd landsins fremstu kynbótahross og þar fer fram glæsileg gæðingakeppni.  Landsmót eru haldin á tveggja ára fresti, þau eru stærstu viðburðir sem haldnir eru í kringum íslenska hestinn og fjöldi erlendra gesta sækja landið heim sérstaklega til að koma á Landsmót.  Alls er búist við um 10-12.000 gestum á mótið og þar af mun um fjórðungur koma erlendis frá.

Samhliða glæsilegri gæðingakeppni og frábærum kynbótasýningum verður boðið upp á lifandi tónlist, ýmiskonar fræðslu um íslenska hestinn og fjölbreytt markaðssvæði.

Landsmót er tæknilega mjög flókinn viðburður og mikilvægt að hljóð, mynd og allar upplýsingar komist með ljóshraða milli fólks.  Til að annast netþjónustu á mótinu hefur Landsmót nú gert samning við Fjölnet sem mun annast alla uppsetningu og þjónustu á internetsambandi á mótinu.  Fjölnet annaðist einnig sömu þjónustu á síðasta Landsmóti hestamanna á Hólum 2016 með stakri prýði.

Fjölnet er framsækið og vaxandi tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hýsingu og rekstri tölvukerfa. Fjölnet býður upp á persónulega og örugga tölvuþjónustu, ásamt því að taka að sér ýmis sérverkefni, ráðgjöf og kennslu.

Miðasala á Landsmót stendur yfir á vefnum www.landsmot.is og hjá www.tix.is og miðar fást á sérstöku forsöluverði til 15. júní.  Hægt er að kaupa vikupassa og helgarpassa en á mótinu sjálfu verða jafnframt til sölu dagmiðar.

Frá vinstri á mynd: Áskell Heiðar Ásgeirsson frá Landsmóti hestamanna, Pétur Ingi Björnsson og Sigurður Pálsson frá Fjölneti

 

Scroll to top